Fara í efni  

Akratorg skartar bleikum litum í október

Í gærkvöldi, þann 16. október, var nýr ljósabúnaður vígður á Akratorgi. Ljósabúnaðurinn kemur frá fyrirtækinu Thorn og eru uppsettir 12 LED kastarar á torginu. Hönnuður lýsingar er Guðjón L. Sigurðsson hjá Verkís og uppsetningu annaðist Rafþjónusta Sigurdórs. Kösturunum er stýrt í tölvuforriti og lýsa þeir á svið, styttu, gosbrunn, torg og gönguleiðir. Hægt er að kalla fram alla liti og stilla styrk á hverju svæði fyrir sig. Þessir lampar og ljósgæði eru meðal annars ætlaðir til að skapa stemningu á torgum og í miðbæjarkjörnum.

Þar sem október mánuður er tileinkaður bleiku slaufunni og sérstaklega 16. október þá var torgið lýst upp bleikt og verður þannig út október. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri hélt stutta tölu um búnaðinn og mikilvægi þess starfs sem krabbameinsfélögin og þá ekki síst Krabbameinsfélagið á Akranesi vinnur og bauð síðan Arndísi Höllu Jóhannesdóttur að kveikja á ljósunum. Októbermánuður hefur verið helgaður árvekni um krabbamein hér á landi síðan árið 2000. Þá hafa ýmis mannvirki verið lýst í bleikum lit í byrjun október frá árinu 2001. Bleika slaufan hefur verið seld til stuðnings baráttunni gegn krabbameinum hjá konum en ár hvert greinast að meðaltali um 700 íslenskar konur með krabbamein, samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu á Íslandi. Bæjarbúar sem mættu á Akratorg í gær klæddust margir bleiku og gæddu sér á heitu kakói sem Krabbameinsfélag Akraness var að selja til styrktar félaginu. Að lokinni vígslu ljósanna steig Friðrik Dór á svið og söng nokkur lög. 

Fleiri myndir sem teknar voru við vígsluna má sjá hérSjá má fleiri myndir frá því í gær með því að smella á myndina.

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00