Fara í efni  

Afmælisnefnd vegna 70 ára afmælis kaupstaðarréttinda skipuð

Afmælisnefnd vegna 70 ára afmælis kaupstaðarréttinda á Akranesi kom saman til fyrsta fundar á dögunum og fyrirhugaðir eru fleiri fundir á komandi vikum.  Nefndina skipa þau Guðríður Sigurjónsdóttir, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Björn Guðmundsson, Elsa Lára Arnardóttir, Karen Emelía Jónsdóttir og Örn Viljar Kjartansson. Tómas Guðmundsson, verkefnastjóri Akranesstofu starfar með nefndinni.


Á fyrsta fundi nefndarinnar skipti nefndin með sér verkum, útnefndi formann og þá voru ræddar ýmsar hugmyndir um verkefni og viðburði í tilefni af afmælisárinu en sjálfur afmælisdagurinn er á Nýársdag, þann 1. janúar nk. Rétt er að hvetja þá sem áhuga hafa á að láta ljós sitt skína í tilefni afmælisársins að setja sig í samband við nefndina eða Akranesstofu og koma hugmyndum sínum á framfæri.


Í fundargerð vegna 1000. fundar bæjarstjórnar Akraness þann 11. október árið 2005 var lögð fram fróðleg greinargerð um þróun kaupstaðarins og stjórnun frá því að Akranes hlaut kaupstaðarréttindi:


 


Fundur bæjarstjórnar Akraness 11. október 2005


Eitt þúsundasti fundur bæjarstjórnar


Þann 26. janúar árið 1942 hélt fyrsta bæjarstjórn Akraness fund sinn, en sveitarfélagið hafði þann 1. janúar það ár fengið kaupstaðarréttindi með lögum frá Alþingi.  Sem kunnugt er var frá landnámi eitt sveitarfélag sunnan og vestan við Akrafjall allt til ársins 1885, þegar Akraneshreppur skiptist í Innri- og Ytri-Akraneshrepp.  Ytri-Akraneshreppur óx og dafnaði þannig að árið 1942 voru þar um 2000 íbúar.  Á árunum fyrir 1942 fjölgaði íbúum og hreppurinn stóð í margs konar framkvæmdum, svo sem hafnargerð, lagningu vatnsveitu og gatnagerð, en að auki átti sér einnig stað mikil uppbygging atvinnulífsins, einkanlega á sviði útgerðar og fiskvinnslu.  Þann 7. febrúar 1941 barst hreppsnefnd Ytri- Akraneshrepps erindi um að hreppsnefndin beitti sér fyrir því að sveitarfélagið fengi kaupstaðarréttindi.  Hreppsnefndin tók erindinu vel og hélt borgarafund þar sem samþykkt var að leita eftir því að Akranes fengi bæjarréttindi.   Eftir að lög Alþingis tóku gildi var boðað til bæjarstjórnarkosninga þann 25. janúar 1942 og daginn eftir tók nýkjörin bæjarstjórn til starfa og hélt sinn fyrsta fund.


Í dag heldur bæjarstjórn Akraness sinn eittþúsundasta fund, en á því tímabili sem liðið er hafa 17 bæjarstjórnir setið, en ein þeirra sat aðeins um nokkurra mánaða skeið því ekki náðist niðurstaða um myndun meirihluta og var þá kosið að nýju.  Í þessum 17 bæjarstjórnum hafa 67 einstaklingar setið sem rétt kjörnir aðalmenn, en þess ber þó að geta að nokkrir einstaklingar hafa sem varamenn setið fundi bæjarstjórnar stóran hluta kjörtímabils, án þess þó að taka þar sæti sem aðalmenn.  Af þessum 67 einstaklingum eru 10 konur, en það var ekki fyrr en árið 1982 að kona var fyrst kosin í bæjarstjórn en þá tóku þrjár konur sæti í bæjarstjórn, þær Ingibjörg Pálmadóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir.


Hálfdán Sveinsson og Jón Árnason eru þeir einstaklingar sem lengst hafa setið í bæjarstjórn en báðir voru þeir bæjarfulltrúar í sjö kjörtímabil eða 28 ár.  Valdimar Indriðason sat í sex kjörtímabil eða 24 ár og þeir Daníel Ágústínusson og Guðmundur Sveinbjörnsson sátu í 5 kjörtímabil í bæjarstjórn eða um 20 ára skeið.  Bæjarstjórar þennan tíma hafa verið 10 talsins.


Bæjarstjórn Akraness hélt fyrstu fundi sína á nokkrum stöðum í bænum, en frá árinu 1943 hefur bæjarstjórn aðallega haldið fundi sína á fjórum stöðum í bænum.  Í svonefndu bæjarhúsi við Kirkjubraut 8, í Stúkuhúsinu við Háteig, en það hús hefur nú verið flutt á safnasvæðið að Görðum, í bæjarþingsalnum að Heiðarbraut 40 og nú í bæjarþingsalnum að Stillholti 16-18, en þangað flutti bærinn skrifstofur sínar árið 1995.


Öllum er ljóst að á þeim 63 árum sem liðin eru frá því að Akranes fékk kaupstaðarréttindi þá hafa öflugir einstaklingar lagt samfélaginu á Akranesi til starfskrafta sína.  Þeir hafa af fórnfýsi og einurð fylgt eftir hagsmunamálum bæjarbúa og lagt grundvöllinn að því velferðarsamfélagi sem Akranes er í dag.  Á þessum tímamótum er þeim sem setið hafa í bæjarstjórn Akraness færðar þakkir fyrir ómetanlegt framlag um leið og þeim bæjarfulltrúum sem taka munu sæti í bæjarstjórn á komandi tíð er óskað farsældar í því mikilvæga starfi.  Umfram allt er ætíð brýnast að hafa hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi og leiða mál fram af skilningi og velvilja.


 


 


 


 


 

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00