Fara í efni  

Aðgerðaráætlun vegna Orkuveitu Reykjavíkur

Akraneskaupstaður hefur ásamt Reykjavíkurborg og Borgarbyggð, sameigendum sínum að Orkuveitu Reykjavíkur, samþykkt aðgerðaáætlun í því skyni að tryggja fjármögnun fyrirtækisins fram til ársins 2016. Sem kunnugt er hefur fyrirtækið glímt við erfiða fjárhagsstöðu um nokkurt skeið en með þessum aðgerðum er að því stefnt að tryggja rekstur fyrirtækisins og um leið þjónustu þess við íbúa og atvinnulíf á starfssvæði þess. 

 

Kynntar hafa verið fjölþættar aðgerðir til að treysta stoðir fyrirtækisins til framtíðar. Eru þær einkum fólgnar í frestun framkvæmda og ýmissa fjárfestinga, lækkun á rekstrarkostnaði og þá er stefnt að sölu eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi fyrirtækisins.  Þá er ljóst að koma þarf til hækkunar á nokkrum liðum gjaldskrár Orkuveitunnar. Er þar um að ræða 8% hækkun á heitu vatni og 45% hækkun á fráveitugjaldi. Á þessu ári tók Orkuveitan yfir álagningu fráveitugjalda og um leið varð sú breyting á forsendum álagningar að í stað fasteignamats fasteigna var lagt á miðað við fermetra fasteigna að viðbættu fastagjaldi. Þessi breyting leiddi af sér tæplega 23% lækkun á meðalálagningu fráveitugjalda á íbúðarhúsnæði en veruleg hækkun varð á meðalálagningu atvinnuhúsnæðis. Þessi hækkun leiðir til þess að meðalútgjöld heimila vegna þjónustu Orkuveitunnar hækka um u.þ.b. 1.500 krónur á mánuði. Ljóst er að þær hækkanir sem hér um ræðir koma til með að bitna verulega á fyrirtækjum, sem mörg hver eiga þegar í rekstrarerfiðleikum og því verður allra leiða leitað til að koma til móts við atvinnulífið til lagfæringar vegna þessara hækkana.   

 

Aðgerðaáætlunin gerir m.a. ráð fyrir að sveitarfélögin þrjú láni Orkuveitunni samtals 12 milljarða króna og miðast hlutur hvers sveitarfélags í láninu við eignarhlut þess í fyrirtækinu. 8 milljarðar króna verða greiddir út nú í apríl en afgangurinn, þ.e. 4 milljarðar króna koma til greiðslu á árinu 2013. 

 

Akraneskaupstaður, sem á 5,528% í Orkuveitunni, mun lána Orkuveitunni 442 milljónir króna í víkjandi láni sem koma mun til greiðslu um næstu mánaðarmót. Akraneskaupstaður mun síðan á fyrsta ársfjórðungi árið 2013 lána Orkuveitunni víkjandi lán allt að 221 milljónir króna. Lánstími beggja lána er til 15 ára og verða lánin endurgreidd með jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum. Lánin eru afborgunarlaus fyrstu 5 árin. Lánin eru verðtryggð og bera sömu vexti og lán til eigenda Lánasjóðs sveitarfélaga á hverjum tíma. 

 

Legið hefur fyrir um nokkurt skeið að grípa þyrfti til úrræða til að koma Orkuveitunni úr þeim bráða fjárhagsvanda sem fyrirtækið á í. Akraneskaupstaður hafði lagt til hliðar fjármuni í nk. varasjóð til að grípa til ef þessi staða kæmi upp eða til annarra brýnna verkefna.  Aðgerðaáætlunin í heild mun mæta 50 milljarða fjárþörf fyrirtækisins á árabilinu 2011 til 2016 og tryggja rekstur þess og þjónustu án þess að leita þurfi erlendra lána. 

 

Framkvæmdir Orkuveitunnar í fráveitumálum á Akranesi eru langt komnar en þó er ljóst að þau verkefni sem út af standa munu frestast nokkuð og er nú ráðgert að þessum framkvæmdum ljúki á árinu 2016.   

 

Megináhersla verður lögð á að tryggja að öll grunnþjónusta við atvinnulíf og heimili verði í lagi.  

 

Þess ber að geta að Orkuveita Reykjavíkur hefur á undanförnum 9 árum skilað Akraneskaupstað liðlega einum milljarði króna á núvirði í arðgreiðslur sem notaðar hafa verið til margvíslegra framkvæmda og uppbyggingar á Akranesi. Mikilvægt er að bregðast við þessum tímabundnu erfiðleikum í rekstri fyrirtækisins og tryggja því nægjanlegt fjármagn til að geta viðhaldið nauðsynlegri þjónustu fyrirtæksisins við heimili og atvinnulíf.  

 

Með umræddum aðgerðum er að því stefnt að skjóta öruggum stoðum undir rekstur Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar og er það sannfæring og trú bæjarstjórnar Akraness að þær séu vel ígrundaðar og líklegar til að tryggja að það markmið náist. 

 

Nánari upplýsingar um áðurnefndar aðgerðir má finna með því að smella á meðfylgjandi hlekki: 

 

Samningur Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar

 

Bókun bæjarráðs Akraness

 

 Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

 

 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00