Fara í efni  

Að loknum írskum dögum

Írskum dögum á Akranesi lauk í gær. Þeir hófust sl. fimmtudag með setningarathöfn og tveimur þéttsetnum siglingum Akraborgar sama kvöld. Dagskrá gekk í alla staði vel allt fram á laugardag, þegar veðurguðirnir tóku í taumana eftir hádegið, feyktu burtu lauslegum hlutum, samhliða því að væta duglega í öllu saman. Aflýsa varð flestum dagskráratriðum svo sem siglingum, litabolta, leikjaskemmtun á Skagaverstúni, markaðstjaldi og ýmsu fleiru. Kvöldvaka laugardags, sem vera átti á Akratorgi, var færð í Íþróttahúsið við Vesturgötu þar sem saman kom mikill fjöldi gesta. Írsku gestirnir í hljómsveitinni Ash Plant skemmtu í Bíóhöllinni, ásamt dönsurum, við miklar og góðar viðtökur gesta.


Fyrir hönd undirbúningshóps að írskum dögum á Akranesi vil ég þakka öllum þeim sem lögðu okkur lið við undirbúning hátíðarhaldanna, fyrir gott og óeigingjarnt starf. Dagskrá þessara írsku daga var bæði viðamikil og metnaðarfull og það var virkilega leiðinlegt að hér skyldi gera eitt versta sumarveður í manna minnum, einmitt þegar hátíðarhöldin stóðu sem hæst. Við þessu er að sjálfsögðu ekkert að gera. Þrátt fyrir hvernig nú fór, er einhugur hjá mönnum um að írskir dagar á Akranesi eru komnir til að vera sem fastur liður aðra helgina í júlí ár hvert.


Magnús Magnússon.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00