Fara í efni  

Að loknum Írskum dögum


Rauðhærðasti Íslendingurinn, Steinar Ólafsson (lengst til hægri) ásamt þeim með rauðasta skeggið og þeirri yngstu með rautt hár, sem heitir reyndar Þula Glóð!

(Mynd: Hilmar Sigvaldason)
Írskir dagar, sem haldnir voru um liðna helgi fóru ekki framhjá neinum enda mikið um að vera og mikið af góðum gestum í bænum sem tóku virkan þátt í fjölbreyttri og fjölskylduvænni dagskrá með heimamönnum. Dagskráin hófst á fimmtudagskvöldi með skemmtilegum tónleikum í íþróttahúsinu að Jaðarsbökkum og stóð nánast sleitulaust allt fram til sunnudags. Fjöldi fólks lagði leið sína í bæinn og var haft á orði að fullt hafi verið af fólki um allan bæ, jafnt á Jaðarsbökkum þar sem hátíðardagskráin fór fram, á Langasandi og í miðbæ Akraness. Þá voru verslunar- og þjónustuaðilar afar ánægðir með viðskiptin á Írskum dögum og það yfirbragð sem fylgdi hátíðinni.


 


 

 


Rauðhærðir, ömmur og sandkastalar


Dagskrá Írskra daga samanstóð af föstum liðum í bland við nýja. Hér á eftir fylgja úrslit í þremur ?keppnum? sem fram fóru, þ.e. keppni um rauðhærðasta Íslendinginn, hittnustu ömmuna og sandkastalakeppninni á Langasandi:


 


Rauðhærðasti Íslendingurinn


Þátttakendur í keppni um rauðhærðasta Íslendinginn voru 54 að þessu sinni; yngsti keppandinn var 6 mánaða gamall. Sigurvegari í keppninni var Steinar Ólafsson, 18 ára Kópavogsbúi sem er nú á leið til Dublin á Írlandi en ferðina fékk hann í verðlaun fyrir sitt eldrauða hár.


 


Hittnasta amman í körfubolta


Í þessum flokki kepptu alls 47 ömmur í skotkeppni á körfu með keppnisfyrirkomulaginu fimm skot pr. ömmu. Ömmurnar skutu alls 235 skotum á körfuna og hittu úr 35 skotum sem er tæplega 15% skotnýting. Hittnasta amman var Ingibjörg Björnsdóttir frá Akranesi. Hún hitti úr 3 skotum af 5. Ingibjörg á fimm barnabörn!


 


Sandkastalakeppni Írskra daga


Þátttakendur í sandkastalakeppni Írskra daga voru um 50 en reist voru 27 listaverk af öllum stærðum og gerðum. Sigurvegarar í keppninni voru feðgarnir J. William Flores Lugo og sonur hans Leonardo Þór Williamsson.


 


Þegar upp er staðið


Skipuleggjendur Írskra daga eru sáttir við þann þátt hátíðarinnar sem að þeim sneri, þ.e. dagskrána og frábæra þátttöku fólks í henni. Ekki verður samt litið framhjá því sem átti sér stað á tjaldstæði bæjarins við Kalmansvík þar sem hópur ungmenna kom saman með áfengisdrykkju, sóðaskap og látum, eftir að skipulagðri dagskrá hátíðarinnar lauk. Rétt er þó að taka fram að stór hluti þessara ungmenna var sér og sínum til sóma. Þessi þáttur  hinnar annars ágætu írsku bæjarhátíðar verður tekinn til gagngerrar skoðunar nú að lokinni hátíð.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00