Fara í efni  

Tónleikar í Tónbergi /aflýst vegna veðurs

Tónleikunum hefur verið aflýst vegna veðurs.

Á föstudagskvöldið kemur kl. 19.30 verða tónleikar í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari leikur þá fjölbreytta efnisskrá verka fyrir fiðlu og píanó ásamt finnska píanóleikaranum Roope Gröndahl. Þeir eru í stuttu stoppi á landinu til tónleikahalds og er það ánægjulegt að þeir skuli hafa valið að leika í Tónbergi.

Ari Þór er einn af fremstu fiðluleikurum Íslendinga. Hann starfar nú sem leiðandi fiðluleikari Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki. Hann hefur á undanförnum árum einnig starfað sem gestakonsertmeistari Konunglegu Fílharmóníusveitarinnar í Stokkhólmi og Orchestre National du Capitole de Toulouse í Frakklandi. Áður hefur hann leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og komið víða fram sem einleikari.

Ari hóf fiðlunám 5 ára gamall og lærði samkvæmt Suzuki-aðferð. Hann lærði síðar hjá Guðnýju Guðmundsdóttur og hélt síðan til Bandaríkjanna til framhaldsnáms þar sem helstu kennarar hans voru Almita og Roland Vamos, Rachel Barton Pine og Sigurbjörn Bernharðsson. Ari útskrifaðist með mastersgráðu frá Northwestern University í júní 2008. Hann hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands en einnig með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hljómsveit Northwestern University. Hann hefur haldið fjölda kammer-og einleikstónleika og starfað sem kennari. Ari Þór var í eitt ár nemandi við Tónlistarskólann á Akranesi á uppvaxtarárum sínum og því er gaman að hann skuli nú koma og heiðra Skagann með tónleikahaldi auk þess sem hann mun leiðbeina fiðlunemendum Tónlistarskólans.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00