Fara í efni  

Í takt við tímann

Skagfirski kammerkórinn ræðst í stórverkefni í tilefni afmælis fullveldis á Íslandi sem er flutningur á verkinu Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter. Kórinn hefur fengið til samstarfs við sig hljómsveitarstjórann Guðmund Óla Gunnarsson, Sinfóníettu Vesturlands, Kammerkór Norðurlands og Kalman listfélag á Akranesi. Einsöngvari í verkinu er Helga Rós Indriðadóttir sem jafnframt er söngstjóri Skagfirska kammerkórsins.

Magnificat er hátíðlegt verk. John Rutter sem venjulega semur sín verk í þoku og súld á Bretlandi sækir innblástur til suðrænna ríkja þar sem sólin skín eins og Spánar, Mexico og Puerto Rico og segir Magnificat, verk, fullt af fögnuði, þar sem sólin skíni frá upphafi til enda. Verkið á því vel við á 100 ára afmæli fullveldis Íslands, á landi þar sem sólin gengur aldrei undir á sumrin og vetur oft langir og dimmir.

Annar hluti tónleikanna er helgaður íslensku einsöngslögunum en þau hafa lifað með þjóðinni í hundrað ár við píanóundirleik. Hér er ætlunin að gera þeim enn hærra undir höfði en venjulega en lög eins og Bikarinn eftir Eyþór Stefánsson, Í fögrum dal eftir Emil Thoroddsen og Sólsetursljóð eftir Bjarna Thorsteinsson hljóma í nýjum útsetningum Guðmundar Óla, fyrir hljómsveit, sungin af Kolbeini Jóni Ketilssyni og Helgu Rós. Sem einnig munu syngja nokkur lög saman.  

Það má segja að dagskrá tónleikanna gefi okkur annars vegar nýstárlega útfærslu á þjóðararfinum; einsöngslögunum og sýni jafnframt þróunina í verkefnavali almennra kóra á hundrað árum og hvað söngelskir Íslendingar eru að fást við í dag, á 100 ára afmæli fullveldisins.

 

 

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00