Fara í efni  

Aðalskipulag

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélög þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á minnst 12 ára tímabili.

Aðalskipulag Akraness 2005-2017 var staðfest af umhverfisráðherra 26. apríl 2006. Við gerð þess var unnin víðtæk  stefna, sem byggðist annars vegar á þeim áætlunum sem fyrir lágu í ýmsum málaflokkum, og hins vegar íbúaþingi sem haldið var haustið 2003. 

Um aðalskipulag sveitarfélaga

Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð aðalskipulags í umboði sveitarstjórnar og er það skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar sem fer með hlutverk skipulagsnefndar. Í upphafi nýs kjörtímabils skal sveitarstjórn taka afstöðu til þess hvort endurskoða skuli gildandi aðalskipulag. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun. 

Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi;

  • landnotkun

  • byggðaþróun,

  • byggðamynstur,

  • samgöngu- og þjónustukerfi

  • umhverfismál

Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þar með talið þéttleika byggðar. Í aðalskipulagi eða breytingu á því, er heimilt að setja fram nánari stefnu, svo sem um nýbyggingarsvæði eða endurbyggingarsvæði í eldri byggð eða um einstök viðfangsefni.

Aðalskipulag skal byggt á landsskipulagsstefnu, svæðisskipulagi, liggi það fyrir, upplýsingum um náttúru- og menningarminjar og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins. Þá skal jafnframt gætt að samræmi við skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga.

Í aðalskipulagi skal marka stefnu til að minnsta kosti tólf ára en jafnframt gera grein fyrir samhengi skipulagsáætlunarinnar og einstakra þátta hennar við langtímaþróun sveitarfélagsins.

Endurskoðun Aðalskipulags Akraness 2005-2017

Vor 2019: Undanfarin ár hefur verið unnið að endurskoðun Aðalskipulags Akraness 2005-2017. Skipulagslýsing var kynnt og auglýst í nóvember 2011. Fyrstu drög að endurskoðuðu aðalskipulagi voru kynnt vorið 2013 á almennum kynningarfundi.

Í upphafi verksins voru helstu viðfangsefni endurskoðunar þessi:

  • Íbúaþróun, endurmat á íbúðaþörf og landþörf.
  • Breytingar á hafnarsvæði. Fallið frá gerð Skarfatangahafnar.
  • Endurskoðun á afmörkun framtíðaríbúðarsvæða, stækkun Skógahverfis.
  • Endurskoðun göngu-, hjóla- og reiðstígakerfis.
  • Kirkjugarður.
  • Svæði fyrir garðyrkjustöð austan Miðvogs (gert með breytingu á gildandi aðalskipu­lagi 2015).

Á verktímanum bættust eftirtalin viðfangsefni við:

  • Sementsreitur.
  • Stækkun miðsvæðis við Dalbraut, Dalbrautarreitur.
  • Stækkun tjaldsvæðis í Kalmansvík.

Eftir að vinna við endurskoðun aðalskipulagsins hófst hafa verið gerðar tíu breytingar á gildandi aðalskipulagi. Veigamestu breytingarnar eru:

  • Sementsreit breytt í miðsvæði og íbúðarbyggð (breyting 2017)
  • Miðsvæði við Dalbraut stækkað (breyting 2017)
  • Meginhluti Skarfatangahafnar felldur út (breyting 2019)

Nokkrar meginbreytingar hafa því nú þegar tekið gildi með aðalskipulagsbreytingum sem kynntar hafa verið sérstaklega með gerð skipulagslýsingar í upphafi hvers verks og kynningarfundum um skipulagstillögurnar.

Önnur drög að endurskoðuðu aðalskipulagi voru kynnt á almennum fundi í janúar 2018. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2018 fór skipulagsráð yfir fyrirliggjandi drög, stefnu, markmið og landnotkun og lagði til nokkrar áherslubreytingar.

Unnið er að húsnæðisstefnu Akraneskaupstaðar þar sem m.a. verður lagt mat á mannfjöldaþróun og húsnæðisþörf. Tekið verður mið af húsnæðisstefnunni í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi. Stefnt er að því að tillaga verði kynnt haustið 2019 og að staðfest aðalskipulag liggi fyrir um mitt ár 2020.

Vor 2013: Tillaga að Aðalskipulagi Akraness 2013-2025, áfangaskýrsla 3, var lögð fram í maí 2013. Endurskoðun Aðalskipulags Akraness 2005-2017 felur í sér uppfærslu eldra skipulags og byggist í meginatriðum á sömu gögnum. Við endurskoðunina var fyrst og fremst litið til eftirfarandi þátta; Íbúaþróun og landþörf undir íbúðarbyggð, hafnarsvæði, endurskoðun á afmörkun framtíðaríbúðarsvæða, endurskoðun stígakerfa, landnotkun og ýmsra minni háttar breytinga.

Vor 2010: Að loknum sveitarstjórnarkosningum, taldi nýkjörin bæjarstjórnar Akraness að þörf væri á endurskoðun nokkurra þátta aðalskipulagsins. Ekki síst var það vegna fólksfjölgunar á árabilinu 2005-2008, sem var langt umfram mannfjöldaspá aðalskipulagsins. Áherslur höfðu einnig breyst á öðrum sviðum, s.s. um uppbyggingu hafnarinnar. Á íbúaþingi sem haldið var í desember 2010 kom fram áhersla á umhverfismál og bæjarumhverfi svo og fjölskyldu- og íþróttabæinn Akranes.

Lýsing og verkáætlun skipulagsendurskoðunarinnar, áfangaskýrsla 1, var auglýst í nóvember 2011. Umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Fornleifavernd ríkisins og Kirkjugarðaráði.

Helstu viðfangsefni endurskoðunar

  • Íbúaþróun, endurmat á íbúðaþörf og landþörf.
  • Breytingar á hafnarsvæði. Fallið frá gerð Skarfatangahafnar.
  • Endurskoðun á afmörkun framtíðaríbúðarsvæða, stækkun Skógahverfis.
  • Endurskoðun göngu-, hjóla- og reiðstígakerfis.
  • Nýr kirkjugarður.
  • Svæði fyrir garðyrkjustöð austan Miðvogs.

Ákveðið var að fyrirliggjandi skipulagsgögn yrðu uppfærð og gefin út að nýju sem heild. Helstu forsendur aðalskipulagsins eru í meginatriðum þær sömu og við gerð aðalskipulagsins 2005 burtséð frá umfjöllum um lýðtölur, mannfjölda og mannfjöldaspá. Sá þáttur forsenduheftis var endurskoðaður í áfangaskýrslu 2, Mannfjöldi og íbúðarhúsnæði, september 2012.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00