ForsíðaÞjónustaStjórnsýslaMannlífUmhverfi og framkvæmdir English Dansk Lithuanian Polski Deutsch
Hvað viltu gera?
Forsíða :: Stjórnsýsla :: Bæjarstjórn
Prenta vefsíðu

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar

Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar segir m.a. eftirfarandi um skipan, sjálfstjórn, hlutverk og verkefni bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar;

I. kafli

Um skipan bæjarstjórnar, sjálfstjórn hennar og verkefni sveitarfélagsins.

1. gr.

Skipan bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar er skipuð 9 bæjarfulltrúum, sem kjörnir eru lýðræðislegri kosningu af íbúum bæjarfélagsins samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna.

2. gr.

Sjálfstætt stjórnvald.

Akraneskaupstaður er sjálfstætt stjórnvald, sem er stjórnað af lýðræðislega kjörinni bæjarstjórn í umboði íbúa bæjarfélagsins.

3. gr.

Verkefni bæjarfélagsins.

Akraneskaupstaður annast þau lögmæltu verkefni sem honum eru falin í lögum, sbr. og leiðbeinandi auglýsingu frá því ráðuneyti sem fer með málefni sveitarfélaga. Jafnframt fer bæjarstjórn með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum bæjarfélagsins að svo miklu leyti sem bæjarstjórn hefur ekki falið öðrum slíka yfirstjórn.

Akraneskaupstaður vinnur að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.

Akraneskaupstað er heimilt að taka að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þess, enda sé það ekki falið öðrum að lögum.

II KAFLI

Um bæjarstjórn.

4. gr.

Hlutverk bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn fer með stjórn Akraneskaupstaðar samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. síðari breytingar, annarra laga og samþykkt þessari.

Bæjarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna, lántökur og ráðstöfun eigna og um framkvæmd verkefna sveitarfélagsins.

5. gr.

Verkefni bæjarstjórnar.

Meðal verkefna bæjarstjórnar er:

1. Að sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum bæjarfélagsins.

2. Að kjósa forseta og varaforseta bæjarstjórnar, sbr. 13. gr. sveitarstjórnarlaga, ráð, stjórnir og aðrar nefndir, skv. V. kafla sveitarstjórnarlaga, að ráða löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast skal endurskoðun hjá bæjarfélaginu, sbr. VII. kafla sveitarstjórnarlaga.

3. Að setja bæjarstjórn siðareglur, sbr. 29. gr. sveitarstjórnarlaga.

4. Að ákveða stjórnskipan bæjarfélagsins, ráða bæjarstjóra, sbr. 54. gr. sveitar­stjórnar­laga og aðra starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður bæjarfélagsins, sbr. 56. gr. laganna.

5. Að móta stefnu fyrir starfsemi bæjarfélagsins, sviða, fyrirtækja og deilda. Setja starfsemi bæjarins reglur, m.a. um ábyrgðarmörk ráða, stjórna og nefnda, kjörinna fulltrúa og embættismanna, gjaldskrár o.þ.h., eftir því sem lög mæla fyrir um og þörf krefur.

6. Að fara með fjárstjórnarvald bæjarfélagsins, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga og gera fjárhags­áætlanir, sbr. 62. gr. sömu laga.

7. Að bera ábyrgð á fjármálum bæjarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja, sbr. 77. gr. sveitar­stjórnarlaga og VIII. kafla samþykktar þessarar og taka ákvarðanir um verulegar skuldbindingar bæjarfélagsins til lengri tíma.

8. Að hafa eftirlit með framkvæmd samstarfsverkefna og þjónustusamninga sbr. IX. kafla sveitarstjórnarlaga.

9. Að veita íbúum bæjarfélagsins og þeim sem njóta þjónustu þess upplýsingar um málefni sem snerta hagi þeirra og um samstarf sem bæjarfélagið  hefur við önnur sveitarfélög, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

6. gr.

Ný bæjarstjórn tekur til starfa.

Nýkjörin bæjarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag. Jafnlengi heldur fráfarandi bæjarstjórn umboði sínu, með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum um kosningar til sveitar­stjórna. Nýkjörin bæjarstjórn hefur einungis umboð til töku ákvarðana um málefni bæjarstjórnarinnar eða bæjarfélagsins eftir að hún tekur við störfum.

Sá fulltrúi í nýkjörinni bæjarstjórn sem á að baki lengsta setu í bæjarstjórn boðar til fyrsta fundar ekki síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar. Hann stýrir fundi þar til forseti hefur verið kjörinn. Hafi tveir eða fleiri fulltrúar setið jafnlengi í bæjarstjórn fer aldurs­forseti þeirra með verkefni samkvæmt þessari málsgrein.

Fyrsta fund skal boða með a.m.k. fjögurra daga fyrirvara.

7. gr.

Kjör forseta og varaforseta.

Á fyrsta fundi kýs bæjarstjórn forseta og tvo varaforseta og skulu þeir kjörnir til eins árs í senn. Njóti forseti eða varaforseti ekki lengur stuðnings bæjarstjórnar skal kjósa í þau embætti að nýju.

Hið sama á við ef forseti eða varaforseti forfallast varanlega eða fær lausn frá starfi. Tilkynna skal kosningu forseta og varaforseta til innanríkisráðuneytis þegar að því loknu.

Sá telst rétt kjörinn forseti sem fær atkvæði meiri hluta þeirra sem sæti eiga í bæjarstjórn. Verði þeim atkvæðafjölda ekki náð skal kjósa að nýju. Við aðra umferð telst sá rétt kjörinn sem fær meiri hluta atkvæða þeirra fulltrúa sem sitja fundinn eða ef viðkomandi er sá eini sem fær atkvæði.Fáist ekki niðurstaða við aðra umferð skal kosið þriðja sinni en þá á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu við aðra umferð. Ef nauðsynlegt reynist skal varpa hlutkesti um það milli hverra tveggja verður kosið. Verður þá sá rétt kjörinn sem fleiri atkvæði fær. Verði atkvæði jöfn ræður hlut­kesti.

Þegar að lokinni kosningu forseta skjal kjósa fyrsta og annan varaforseta. Kosning varaforseta fer fram með sama hætti og forseta.

Varaforsetar gegna störfum forseta í réttri töluröð embættanna. Sé enginn forseti á fundi gegnir aldursforseti störfum forseta nema bæjarstjórn ákveði að kjósa sérstakan fundarstjóra.

Samþykktina má sjá í heild sinni hér

 
RSS frá Akranesi
Akraneskaupstaður | kt:410169-4449 | Sími 433 1000 | Fax 433 1090 | Stillholt 16-18, 300 Akranes | Vefstjóri: akranes@akranes.is
Íslensku vefverðlaunin 2008