ForsíðaÞjónustaStjórnsýslaMannlífUmhverfi og framkvæmdir English Dansk Lithuanian Polski Deutsch
Hvað viltu gera?
Forsíða :: Mannlíf :: Útivist og íþróttir
Prenta vefsíðu

Íþrótta- og útivistarbærinn Akranes

Akranes er mikill íþrótta- og útivistarbær. Flestir þekkja hina ótrúlegu afrekssögu Skagamanna á knattspyrnuvellinum og fá sveitarfélög á Íslandi geta státað af öðrum eins fjölda þekktra knattspyrnumanna; atvinnumanna, Íslandsmeistara og landsliðsmanna. Þá hefur sundfólk af Skaganum náð frábærum árangri og m.a. keppt á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd. Á Akranesi eru stundaðar fjölmargar íþróttir og víst er að íbúar bæjarins eru afar meðvitaðir um mikilvægi hreyfingar og hollrar útivistar.

Á Akranesi eru frábærar aðstæður til hvers konar hreyfingar og útivistar. Fyrstan skal nefna hinn margrómaði 18 holu golfvöll Skagamanna, Garðavöll, en þangað sækja þúsundir ár hvert, jafnt Skagamenn sem aðrir áhugasamir golfarar. Skammt frá golfvellinum er svo útivistarsvæði Akurnesinga, Garðalundur, þar sem finna má leiktæki og sparkvelli fyrir börn á öllum aldri. Íþróttamiðstöðin að Jaðarsbökkum er ekki langt frá golfvellinum og  sömuleiðis í nokkurra mínútna fjarlægð frá Safnasvæðinu að Görðum. Þar er frábær sundlaug og fjölnota íþróttahús auk fjölmargra íþróttavalla.

Ekki má gleyma útivistarparadísinni Langasandi, sem lúrir undir Jaðarsbökkunum.  Langisandur er ein vinsælasta útivistarperla bæjarbúa og mikið notaður til gönguferða. Gönguferð um sandinn tekur 30-40 mínútur ef gengið er fram og til baka, en þetta fer nokkuð eftir stöðu sjávar og að sjálfsögðu hversu hratt er gengið. Þess má til gamans geta að Langisandur er um 1 km að lengd og því má segja að ganga fram og til baka eftir sandinum sé mjög nálægt hinum ráðlagða hreyfingar-dagskammti sem heilsu- og hollustufræðingar mæla með.

Akrafjall hefur lengi verið vinsæl útivistarparadís Skagamanna, enda er fjallið án efa eitt best varðveitta leyndarmál Skagans. Akrafjall er eitt þeirra fjalla sem er tiltölulega auðvelt að ganga á og hentar því fjölskyldufólki sérstaklega vel. Það þarf ekki mikla reynslu eða dýran útbúnað til að ganga á Akrafjall þó nauðsynlegur hlífðarfatnaður og lágmarks þrek verði að vera til staðar. Nákvæmt kort með helstu gönguleiðum á Akrafjalli hefur verið gefið út og má nálgast víða, m.a. á upplýsingamiðstöðvum og á bensínstöðvum á Akranesi. Þegar göngunni lýkur er tilvalið að fara niður á Langasand, gera þar teygjuæfingar og láta svo þreytuna líða úr sér í sundi og slökun eða í heita pottinum.

 

 
RSS frá Akranesi
Akraneskaupstaður | kt:410169-4449 | Sími 433 1000 | Fax 433 1090 | Stillholt 16-18, 300 Akranes | Vefstjóri: akranes@akranes.is
Íslensku vefverðlaunin 2008